27 ára Afmælið

Bloggið var niðri á afmælisdaginn svo ég skrifa örfáar línur í dag í staðin.

27 okt var fallegur dagur, kaldur og bjartur og við fórum upp í kirkjugarð með blóm fyrir fjölskylduna. Það var notarleg stund og svo fórum við heim í kaffi og kökur og sendum kverðjur til himna í tilefni dagsins.

Mamma tók að sér að finna legsteina eftir að við vorum í sameiningu búin að hanna hvað við vildum hafa hjá Þórði….. leitað hefur verið upp um fjöll og dali, ofansjáfar og neðan og loksins já loksins fundust steinarnir tveir!!!

Það er verið að grafa í þá og ef allt gengur eftir þá verða þeir komnir upp með vorinu…..

Með von um að þið séuð öll í góðum gír,

BW

afmælisdagurinn nálgast

Elsku ástvinir

Nú líður senn að því að Þórður á afmæli. Já elsku drengurinn verður 25 ára 27. Október n.k.

Ég verð því miður ekki heima á afmælisdaginn. En við ætlum samt að halda uppá afmælið hans. Við ætlum að halda smá teiti á Kárastígnum viku eftir afmælið. Þann 03. Nóv. Kl.16-20.

Okkur hefur lengi langað til að hitta vini og samferðafólk hans Þórðar. Þó að hann hafi bara verið 17 ára þegar hann kvaddi okkkur, þá átti hann óskaplega marga vini og kunningja.

Ég ætla að segja ykkur tvær skemmtilegar sögur af Þórði frá því rétt aður en hann fór.

Hann var búinn að vinna á Torvaldsen bar í nokkra mánuði sem “glasabarn” . Þá var það vinsælasti staðurinn á svæðinu. Hann sagði við mig einn daginn. “mamma það heilsa mér nánast allir á leiðinni í vinnuna, ég þekki bara næstum því alla, og það býr allt fræga fólkið í 101 og við”

Einn daginn þegar hann kom heim úr skólanum sagði hann “ Ég er eiginlega hættur við að fara í lögfræði, ég er að hugsa um að fara í sálfræði” Já sagði ég” Það er nefnilega þannig að stelpurnar í skólanum (Hraðbraut) eru alltaf að trúa mér fyrir leyndarmálum” Já þú ert svo góður að hlusta karlinn minn, sagði ég þá” Hann svaraði um hæl, “Já þessvegna fékk ég tvö eyru, en bara einn munn”

Það er merkilegt að fylgjast með minningarsíðunni hans Þórðar sem skólasystkini hans opnuðu, eftir andlátið. Það eru komnar 104.399 heimsóknir núna þegar þetta er skrifað og í dag hafa 19 manns heimsótt síðuna.

Elsku fólk got væri ef þið létuð mig, Birnu eða Össur vita hvort þig getið komið til okkar í tilefni af 25 ára afmælinu. Skólasystkinin, körfuboltastrákarnir, vinnufélagarnir, og bara allir þeir sem þekktu Þórð eru hjartanlega velkomin. Við munum taka vel á móti ykkur og hlökkum mikið til.

Netföngin okkar: thorunn@norvik.is birna@e4.is ossurw@e4.is

Takiði vel utan um ykkur sjálf.

Tóta mamma hans Þórðar

24 ára afmælisdagurinn

jæja í dag er 27 oktober – dagurinn hans Þórðar.

Við fórum með krakkana upp í garð í gærkvöldi með hjartað á leiðið í ofboðslega fallegu veðri. það var logn, tunglskin, stjörnubjart og norðurljósin dönsuðu um himininn. Þetta var stund til að muna. Stund sem ég mun geyma í hjartanu.

Við erum viss um að þú hafir slengt þessu á himininn fyrir okkur í tilefni dagsins 🙂

Elsku bróðir til hamingju með daginn á himnum, ég set reykelsi út og sendi kveðjur til þín í dag xxx

Birna Willard

6 ár í dag

Ég vaknaði í nótt klukkan 3 og lá vakandi góða stund. Þetta var um það leyti sem Þórður var á rúntinum á Dalvík fyrir 6 árum síðan, syngjandi sæll og glaður. Hann var í góðra vina hóp, veðrið var milt og fallegt vorveður og lífið blasti við honum……….

Ég hugsaði með mér þar sem ég lá uppi í rúmi með Calum Bjarma hrjótandi við hliðina á mér að tíminn læknar ekkert öll sár. Alltaf um miðjan april, síðan Þórður dó, verð ég voðalega döpur og meyr. Sá tími er tími sorgar og sorgin er ekkert minni núna 6 árum síðar. Málið er bara að ég lifi með henni og mun gera alla tíð.

Kæru vinir, við Össur ætlum í kirkjugarðinn í kring um hádegi með eitthvað fallegt á leiði litla bróður okkar. Það getur ekki nokkur maður ímyndað sér hversu erfitt það er bara að skrifa þessi orð…..

Verum góð við fólkið okkar og vakandi fyrir vanlíðan, depurð og merkjum um þunglyndi. Það á enginn að þurfa að takast á við missi og sorg á þennan hátt!

Knús á ykkur,

Birna systir