Monthly Archives: November 2004

Til hamingju með daginn ástarengill – 27. okt

Til hamingju með daginn Ástarengillinn minn er eitthvað sem ég vildi óska að ég væri að segja við þig í dag. Í dag hefðir þú orðið 18 ára, stóri litli bróðir minn.

En lífið er ekki alltaf eins og maður vill hafa það, eins og ég er að reyna að kenna Calum Bjarma frænda þínum. Maður getur ekki alltaf ráðið öllu sjálfur. Ég vildi til dæmis að þú hefðir ekki tekið þessa ákvörðun sem þú tókst 25 apríl síðastliðinn. En svona er lífið bara, maður á sín augnablik sjálfur og þetta var þitt .

Ég hef reynt eftir bestu getu að horfa fram á veginn í staðinn fyrir að gleyma mér í sorginni. Ég hugsa mikið um gömlu góðu dagana þegar þú varst lítill og ég get bara brosað. Þú varst æðislegt barn. Svo glaður alltaf, rólegur og klár. Manstu eftir snjóhúsunum sem við bygðum á Dalvík? Manstu eftir frakklandsferðinni þegar þú fékkst golfsettið? Manstu eftir öllum Nesferðunum? Manstu þegar við veiddum skjaldbökuna í Florida?

Svo koma upp í huga mér brandarar sem við upplifðum saman. Manstu þegar þú lagðist í götuna á leiðinni í dýragarðinn í London þarna um árið? Hvað við hlógum mikið og gátum ekki notið okkar í garðinum fyrir hlátri? Manstu þegar þú fórst með mér á fæðingardeildina þegar ég var að eiga Calum og fórst síðan einn heim af því að þetta var bara of mikið fyrir þig og borðaðir svo bara KFC á aðfangadag af því að allir voru á fæðingardeildinni? Manstu þegar þú hjálpaðir mér að flytja á Skólastrætið? Manstu eftir öllum hlátursköstunum þegar kettirnir okkar fengu að hittast? Ég man.

Ég elska þig alltaf og elska þig nú,
hvað sem gerist og hvar sem ég er.
Þá mundu það:
Minn hugur er hjá þér

Þetta er partur af vísu sem þú sendir mér á 25 ára afmælisdaginn minn og nú sendi ég þér hana til baka

Ég sakna þín ástarengill.

Birna Systir