Monthly Archives: April 2005

Eitt ár -25.04

Hæ sæti ;)

Þetta ár hefur verið fljótt að líða, of fljótt ef eitthvað er. Ég hef
ekki enn komist að leiðinu þínu, hvort það sé vegna skorts á kjarki
eða tíma get ég ekki svarað. Ég mun þó fara þangað um leið og ég
kemst.

Þú veist örugglega að ég hugsa daglega til þín. Mér þótti jú mjög vænt
um þig, það mun ekkert breytast. Mér hefur reynst erfitt að komast
yfir þessar fréttir. Ég hef samt átt góða að sem hafa stutt mig mikið.
Ég hef svolítið velt því fyrir mér af hverju þetta er svona erfitt.
Það deyja jú allir á endanum, en ég veit ekki. Vissi ekki að þetta
væri svona rosalega mikill sársauki.

Ég hef líka hugsað um vináttuna, vináttu yfir höfuð og vináttuna milli
okkar. Ég fékk samviskubit yfir því hvernig vinskapurinn á milli okkar
hafði farið minnkandi þegar ég frétti af þínum dauða. Ég var alltaf að
fara að tala við þig aftur en ég veit ekki, stundum á maður það til að
forgangsraða vitlaust. Mig langaði svo að bæta vinskapinn en ég hélt
bara að það yrði nægur tími til. Það var svo sjálfsagt. Þú varst ungur
og mér fannst lífið blómstra hjá þér. Það var margt sem ég vissi ekki.

Það er erfitt að kveðja, en ég vil bara þakka þér fyrir að hafa leyft
mér að kynnast þér. Þú varst í mínum augum yndislegur, og munt ávallt
vera það. Ég gæti ekki elskað neinn meira…

Metta