Monthly Archives: October 2006

Afmælið þitt…….

Ég vaknaði í morgun og hugsaði með mér hvað lífið væri óréttlátt.

Auðvita ætti ég að vera að fara í afmælisveisluna hans Þórðar í dag. Auðvitað ætti ég að vera búin að kaupa handa honum gjöf. Auðvitað ætti ég að hringja í hann og syngja “hann á afmæ´lí dag, hann á afmæ´lí dag, hann á afmæ´lann Þórður………

Ég fór framúr og skellti mér út í rigninguna og rokið og fór beina leið í bootcamp og hristi af mér slenið og komst í aðeins betra skap.

Dagurinn leið eins og hver annar haust dagur í Reykjavík. Þungur, grár og dimmur. Svona svipaður og skapið í mér er búið að vera undan farna daga.

Þegar að klukkan nálgaðist 16:00 fór ég að græja Amalíu, sótti Calum Bjarma og Dadda minn og við héldum upp í kirkjugarð. Alla leiðina hugsaði ég “ það kemur enginn, það er svo ömurlegt veður” En ég hafði ekki rétt fyrir mér.

Mér varð litið í áttina að kirkjugarðinum er ég kom yfir hæðina og sá að það voru mörg bílljós sem að lýstu upp grámann í Mosfellsdalnum. Mér hlýnaði inni í mér og fékk tár í augun. Mikið átti hann marga góða vini hann Þórður bróðir.

Við fórum með hjartað, blóm og kerti en ekki gekk okkur vel að kveikja á því sökum ofsaveðurs. Við stóðum og hugsuðum í vonda veðrinu og ég er nokkuð viss um að eftirsjá og söknuður var ofarlega í huga hjá öllum þessa stund.

Leiðin lá svo á Kárstíginn þar sem mamma töfraði fram fiskisúpu, kökur og osta og öll settust við niður og borðuðum á okkur gat. Svo fórum við inn í stofu og rifjuðum upp allskonar atvik og skemmtileg heit. Það var mikið brosað yfir myndum og það var gott að sitja og hlusta.

Fyrir mitt leiti þá held ég ákveðinni tengingu við Þórð í gegn um þessa yndislegu vini sem að hann átti. Það er gott að hitta þau og þau eru frábær.

Nú er ég komin heim, krakkarnir sofnaðir og ég sit hér við skjáinn og hugsa með mér að þetta hafi verið fínn dagur. Fínn dagur til að minnast Þórðar. Muna allt það góða sem hann stóð fyrir. Muna hvað hann var einlægur. Muna hvað hann var djúpur, þroskaður, næmur, fallegur og yndislegur í alla staði.

Takk fyrir mig og munið að vera góð við hvort annað J

Kv, Birna systir

27 oktober 2006 ætti þórður bróðir 20 afmæli.

Í tilefni þess, ef að svo má að orði komast, ætlum við að hittast í kirkjugaðinum á afmælisdaginn hans kl 17:00. Þar munum við kveikja á kerti og eiga saman stund.

Okkur fjölskyldunni langar líka til að bjóða ykkur, vinum hans og kunningjum í heimsókn á Kárastíg 9 kl 19:00. þið megið gjarnan koma með eitthvað sem að minnir ykkur á hann ef þið viljið

Okkur er það mikið í mun að allir sem að þekktu hann láti sjá sig.

Það verður engin formleg dagskrá, bara “hittingur” þar sem við getum kjaftað saman, hlegið, skoðað myndir, hlustað á lögin hans og jafnvel skipst á sögum.

Hlökkum til að sjá ykkur öll,

Birna systir og mamma