Monthly Archives: April 2009

5 ár er langur tími…………

………. langur tími þegar að maður saknar og sér eftir einhverjum.

Í dag eru 5 heil ár síðan Þórður bróðir kvaddi þennan heim. Ég sakna hans jafn mikið í dag og ég gerði rétt eftir að ég missti hann. Það verður samt einhvern vegin bærilegra að lifa án hans.

Það sækir að manni samviskubit ef að maður gleymir honum í einn dag eða man ekki eftir einhverju í sambandi við hann, en ég hef heyrt talað um að fólk finni fyrir þessu sem misst hefur mikið.

Það er eðlilegt að gleyma með tímanum. Gleyma hægt og rólega minningum sem sátu svo fast í manni einu sinni. Það er vont og sárt að gleyma en fullkomlega eðlilegt!

Ég á mína sérstöku daga sem ég nota til að “muna”. Þá tek ég fram myndaalbúm, spila tónlist, þefa af bolnum hans eða horfi á videóspólur. Ég græt og hlæ og kveiki á minningunum mínum aftur. Það er yndislegt og mér finnst ég hafa hann nær mér þá daga……..

Elskulega fólk, verið góð við hvort annað og vonandi hjálpa þessi skrif mín einhverjum sem gengur í gegnum það sama.

Birna systir